top of page
Search

Chelsea vs. Manchester United – upphitun + hugleiðingar


Frammistaða Chelsea gegn Roma í vikunni minnti mig óþægilega mikið á einn af síðustu leikjum José Mourinho sem stjóra Chelsea (seinna skiptið). Þessi leikur átti sér stað 31. október 2015, þá lék Chelsea gegn Liverpool á Stamford Bridge. Leikurinn endaði 1-3 í leik þar sem Chelsea komst yfir 1-0 en Liverpool jafnaði metin rétt fyrir hálfleik. Í seinni hálfleik mætti svo skelfilegt Chelsea lið til leiks sem lét Liverpool labba yfir sig. Hljómar þetta kunnuglega? Það finnst mér.

Þó svo að Chelsea hafi lent 2-0 undir gegn Roma í fyrri hálfleik var Chelsea að skapa sér slatta af færum og staðan ekki að gefa rétta mynd af leiknum. Seinni hálfleikurinn var hins vegar uppgjöf. Engin barátta, engin liðsheild – bara höfuðlaus her leikmanna sem gat ekki beðið eftir lokaflauti dómarans.

Fréttirnar í liðinni viku hafa verið áhugaverðar. Matt Law birti pistil í Telegraph þar sem hann talaði um Conte hefði tekið leikmennina á teppið í vikunni og flestir leikmenn liðsins fengið „hárblásara-meðferðina“ í anda Alex Ferguson. Meira að segja Kenedy greyið fékk að heyra það eftir Conte sá hann geispa á fundinum. Persónulega finnst mér gott að lesa svona fréttir, að Conte láti menn ekki komast upp með svona frammistöður.

Ef við stígum eitt skref til baka og reynum að greina það hvers vegna Chelsea eru að sýna þennan óstöðugleika blasir hún svona við mér:

  • Meiðsli lykilmanna: Með okkar þunna hóp þá hefur leikmannahópurinn einfaldlega ekki bolmagn í að þola meiðsli frá 2 af 4 miðjumönnum liðsins. Liðið hefur sárlega saknað N‘Golo Kanté og um leið þurft á Danny Drinkwater að halda til þess að geta stigið inn í hið vafasama samstarf Bakayoko og Fabregas. Það er líka vert að minnast á meiðsli Eden Hazard frá því í sumar. Hazard er ennþá langt frá því að vera kominn í sitt besta leikform og virðist hreinlega ekki ráða við að spila 2 leiki á viku – alla vega miðað við frammistöðurnar.

  • Andstæðingar farnir að lesa okkur: Til þess að vinna Chelsea þá þarf andstæðingurinn að gera nokkra hluti:

  • A) Setja hápressu á liðið þegar við erum að hefja uppspilið okkar og kortleggja allar sendingarleiðir úr uppspilinu sem Conte hefur notast við. Þetta er ekki eins flókið og það hljómar. Cortouis gefur alltaf boltann annað hvort á Azpi eða Cahill. Þeir koma boltanum jafnan upp á vængbakvörð eða beint á framherjann sem þá er staðsettur við miðju vallarins sem á að koma boltanum á annan hvorn miðjumanninn eða væng-framherjann. Ef andstæðingurinn „límir“ sig á miðverðina þá sparkar Courtois miðlunglöngum bolta á vængbakverðina – yfirleitt Marcos Alonso, sem skallar þá boltann inn á miðsvæðið.

  • B) Þetta er alltaf sama uppleggið hjá Conte. Man City notaði Sterling og Sane með frábærum hætti til þess að staðsetja sig mitt á milli miðvarðanna og vængbakvarðanna og tókst þannig að pressa á báðar sendingaleiðir Cortouis með skelfilegum afleiðingum fyrir okkar menn. Roma gerði það nákvæmlega sama og meira að segja Crystal Palave tókst slá uppspilið okkar út af laginu með þessari einföldu framkvæmd.

  • Ef liðum tekst að gera þetta með áhrifaríkum hætti þá er uppspilið okkar í ruglinu og sá þáttur hefur verið einskonar hjarta í 3-4-3 leikkerfi Conte.

  • Of þunnur hópur: Leikmannahópur Chelsea er of lítill. Í augnablikinu eru bara Kanté og Moses meiddir, tveir leikmenn (!) og Conte notar það sem afsökun að liðið sé að ganga í gegnum erfið meiðsli. Þetta er samt staðreynd, það munar rosalega um hvern og einn leikmann – sérstaklega á miðsvæðinu og í vængbakvörðunum. T.d. hefur frammistaða Marco Alonso valdið gríðarlegum vonbrigðum í undanförnum leikjum, fyrir mér er ástæðan einfaldlega sú að hann fær enga hvíld nema í Deildarbikarnum. Cesc Fabregas er svo annar leikmaður sem hefur næstum því spilað allar mínútur liðsins, það sést á leik hans auk þess sem Cesc er að spila stöðu sem er honum ekki eðlisbundin og það án N‘Golo Kanté. Í janúar þarf Chelsea að finna annan framherja og vinstri vængbakvörð – svo einfalt er það.

Leikurinn gegn Man Utd

Ég vona að byrjunarlið Chelsea verði svona:


Fyrir mér veltur þessi leikur á því hvort títtnefndur Kanté verði klár í slaginn eða ekki. Leikmenn liðsins þurfa á honum að halda, nærvera hans ein og sér myndi veita mönnum eins og Bakayoko og Alonso aukið sjálfstraust. Einnig vil ég sjá Azpilicueta spila í vörninni, ekki í vængbakverðinum. Conte verður einfaldlega að treysta Zappacosta þar sem Moses er frá. Ég vil sjá Conte velja 3-5-2 til að berjast við líkamlega sterka miðju Man Utd.

Eins og ég tek fram að þá er þessi uppstilling mín óskhyggja. Ég er hins vegar ekki viss um að þetta verði raunin. Mig grunar að 3-4-3 verði áfram fyrir valinu og að Kanté byrji þá með Bakayoko eða Drinkwater á miðjunni. Einnig er ég logandi hræddur um að Azpi byrji í vængbakverðinum. Sjáum hvað setur.

Það er alveg ljóst að þetta verður virkilega erfiður leikur. Okkar gamli vinur, Jose Mourinho, er með þrefalda meistaragráðu í að setja upp leiki sem þessa. Ef eitthvað er að marka spilamennsku þeirra gegn okkar mönnum í fyrra og gegn Spurs um liðna helgi mun Móri fyrst og síðast hugsa um að verja markið sitt og vera sáttur með jafntefli. Það verða engir óþarfa sénsar teknir í leik liðsins og allar líkur á að leikurinn verði ekki mikið fyrir augað.

Móri mun einnig láta Ander Herrera elta Hazard út um allan völl, Hazard þarf að vera klókur í þeim aðstæðum líkt og í bikarleiknum á Stamford Bridge í fyrra þar sem Herrera fékk rautt spjald fyrir ítrekuð brot á okkar manni. Hins vegar var Herrera með Hazard í vasanum á Old Trafford skömmu síðar.

Þegar Man Utd mætti Liverpool um daginn var Liverpool að leika virkilega illa en samt mætti Móri með tvær rútur og lagði þeim beint fyrir framan De Gea í markinu. Ég tel það því einstaklega ólíklegt að við sjáum aftur 4-0 sigur eins og í þessum leik í fyrra.

Mín spá: 0-0

KTBFFH


bottom of page