top of page
Search

Upphitun: Arsenal kemur í heimsókn


Það er fullt af leikjum hjá Chelsea þessa dagana, þannig viljum við hafa það. Eftir góðan sigur á Qarabag í Meistaradeildinni sl. þriðjudag mæta Arsenal í heimsókn á Stamford Bridge á sunnudag. Þetta er um margt mjög þýðingamikill leikur, ef Chelsea vinnur leikinn erum við heilum 6 stigum á undan Arsenal eftir aðeins fimm umferðir, að sama skapi ef Arsenal sigrar eru liðin jöfn að stigum, sem væru mikil vonbrigði því ekki eru Arsenal búnir að vera sannfærandi það sem af er tímabili. Það vinnur klárlega með okkur að Arsenal hafi verið að spila í Evrópudeildinni sl. fimmtudag, jafnvel þó Wenger hafi hvílt marga leikmenn þá voru 3-4 leikmenn í liðinu gegn Koln sem munu spila á sunnudag gegn okkar mönnum.

Þetta verður þriðji leikur Chelsea á átta dögum og því hefur verið kærkomið að sjá að Conte er að "rótera" eins mikið og hann getur. Leikurinn gegn Leicester var mjög krefjandi og fór mikil orka í þann leik. Leikurinn gegn Qarabag var yfirburðasigur þar sem liðið þurfti ekki að vera á bensíngjöfinni allan leikinn. Allir leikmenn eiga að vera ferskir.

Ég ætla að spá byrjunarliði okkar manna svona:


Ég held að Fabregas þurfi að bíta í það súra epli að byrja ekki gegn sínum gömlu félögum. Conte mun vilja fara aftur í „hreina“ 3-4-3 með Bakayoko og Kante á miðjunni. Bakayoko hefur virkilega heillað mig í þessum leikjum sem hann hefur spilað svo ég hef vissan skilning á þeirri breytingu. Stóra spurningin er með framlínuna og hvort Hazard muni byrja leikinn eða ekki. Ég ætla að typpa á að svo verði og að Pedro muni byrja á hægri vængnum. Persónulega myndi ég vilja sjá Willian byrja en ef eitthvað er að marka skiptingar Conte í Qarabag leiknum að þá vildi hann greinilega gefa Pedro meiri hvíld. Zappacosta sýndi okkur svo rækilega hvað hann getur í umræddum meistaradeildarleik en ég held þó að Moses haldi sæti sínu, í bili að minnsta kosti. Að lokum er svo spurning hvort Rudiger eða Cahill fái kallið - ég held að Rudiger byrji og byggi það á stjórnarstíl Conte, hann er ekki mikið í því að breyta sigurliði.

Ég er persónulega að upplifa umræðuna fyrir þennan leik þannig að Chelsea eigi að vinna þennan leik örugglega. Sú var einnig raunin fyrir bikarúrslitaleikinn í vor, í þann leik mætti Arsenal mun grimmari og voru einfaldlega betra liðið heilt yfir. Það skal engin vanmeta Arsenal, þeir eru með rosalega góða leikmenn inn á milli og það sem verra er að Alexis Sanchez er óðum að komast í sitt besta form.

Taktístlega séð munu Arsenal líklega stilla upp í sama kerfi og við, 3-4-3, með Sanchez, Özil og Lacazette í framlínunni – ekki slæmt það. Reyndar hefur Danny Wellbeck verið þeirra besti maður það sem af er tímabili og spurning hvort hann byrji á kostnað Alexis.

Að mínu viti liggur vandi Arsenal í miðjumönnunum, Xhaka og Ramsey – þeir hafa ekki verið sannfærandi sem miðjupar í þessu kerfi og létu algerlega hlaupa yfir sig í leiknum gegn Liverpool. Wenger er líka í brasi með þriggja manna miðvarðalínuna sína og hefur sá gamli verið mikið að prófa sig áfram í þeim efnum.

Þrátt fyrir dapurt tímabil í fyrra eru fá lið jafn vel spilandi og Arsenal, t.d. var ekkert lið með fleiri sendingar á fremsta þriðjungi vallarins og Arsenal í fyrra, þeir eru mjög hreyfanlegir í sókninni og geta skorað roslega flott mörk þar sem þeir splundra upp vörnum andstæðinganna með flottu samspili.

Þrátt fyrir allt þetta erum við með betra lið og þetta er leikur sem við eigum að vinna ef við nálgumst hann rétt. Arsenal liðinu líður illa undir pressu (eins og sást gegn Liverpool) og eiga það til að brotna illa þegar það fer að blása á móti. Ef Bakayoko og Kante taka öll völd á miðjunni er það fyrsta skrefið í brjóta þá almennilega á bak aftur, ég vil sjá þá vinna boltann framarlega á vellinum í góðri pressu og koma okkar fremstu mönnum í góða 1 vs. 1 stöðu sem við eigum að klára. Andrúmsloftið á Stamford Bridge er líka sjaldan betra en þegar Arsenal koma í heimsókn og það mun vonandi gera gæfumuninn.

Mín spá er 2-1 sigur Chelsea í hádramatískum leik.

KTBFFH


bottom of page