top of page
Search

Sumarglugginn 2017: Uppgjör


Eftir æsilegan „gluggadag“ sl. fimmtudag þar sem félagaskiptaglugginn lokaði hafa núna liðið 3-4 dagar til þess að meta nákvæmlega hvernig stjórnendum Chelsea tókst til í þetta skiptið. Til þess að skoða þetta heildstætt þarf að skoða allan gluggann í heild sinni, ekki bara hvaða leikmenn komu og fóru, heldur líka hvaða leikmenn fóru á láni og hvaða leikmenn liðinu mistókst að fá.

Komnir/Farnir

Byrjum á byrjuninni. Svona lítur hin alræmda „komnir-farnir“ mynd út:


Þegar horft er á myndina þá lítur þetta ekki svo skelfilega út hvað leikmenn varðar, þ.e. þeir leikmenn sem eru farnir voru ekki lykilmenn í liðinu að frátöldum Nemanja Matic. Aðrir leikmenn sem fóru voru varamenn sem margir hverjir fengu fá tækifæri í fyrra sbr. Loftus-Cheek, Chalobah, Zouma og Aké. Það var hins vegar alveg ljóst að með auknu leikjaálagi sem fylgir Meistaradeild Evrópu að hópurinn þyrfti að breikka, sér í lagi vegna þess að liðið þurfi að glíma við afskaplega fá meiðsli á síðasta tímabili. Það sem einnig skekkir þessa mynd hér að ofan eru viðskipti Chelsea í síðasta janúar-glugga, en þá yfirgáfu þrír reynslumiklir leikmenn liðið, Ivanovich, Mikel og Oscar. Að því tilefni er gaman að skoða hvernig leikmannalaug Chelsea lítur út núna miðað við sama tíma í fyrra:


Þeir sem eru rauðmerktir í hópnum frá því í fyrra eru þeir leikmenn sem eru farnir, að sama skapi eru nýir leikmenn í hópnum í ár gulmerktir. Þessi samatekt er virkilega áhugaverð – þarna eru 12 leikmenn farinir úr hópnum frá því í fyrra, ýmist lánaðir eða seldir. Í staðinn hafa komið inn 10 leikmenn. Þannig breiddinn er í raun og veru minni en hún var á sama tíma í fyrra, það eitt og sér er ákveðinn áfellisdómur yfir leikmannaglugganum í heild sinni. Hins vegar er vert að benda á þá staðreynd að hópurinn hefur meira jafnvægi til þess að spila 3-4-3 kerfið hans Antonio Conte sem felast m.a. í kaupunum á Zappacosta.

Að lokum er nettó eyðslan er ekki mikil, eða um 62 milljónir punda. Þá er ekki verið að telja með þann pening sem fékkst fyrir Oscar í janúar. Ef sú upphæð væri tekin með þá værum við nánast á núllinu.

Flókinn staða og misheppnaðir eltingarleikir

Það sem óneitanlega flækti stöðuna í þessum glugga var að liðið var ekki beint að kaupa leikmenn til þess að koma inn í byrjunarliðið heldur meira til þess að breikka hópinn – það getur reynst erfitt. Það virtist liggja fyrir mjög snemma í sumar að Nemanja Matic og Diego Costa (meira um það síðar) myndu yfirgefa liðið. Chelsea brást þá nokkuð snemma við þessum málum og Timoue Bakayoko og Alvaro Morata eru „like-for-like“ kaup fyrir Costa og Matic. Fyrstu kaupin voru hins vegar Antonio Rudiger sem segja má að komi inn fyrir Ake/Zouma. Allt eru þetta kaup sem ég tel að munu reynast liðinu vel þegar fram í sækir. Þegar kom hins vegar að því að breikka hópinn þá lenti liðið í vandræðum, sér í lagi þegar ljóst var að Nate Chalobah bað um sölu. Þar erum við að reyna kaupa leikmann til þess að fylla skarð sem fjórði miðjumaður, það liggur fyrir að það eru ekki margir gæðaleikmenn sem sætta sig við slíkt hlutverk eða þora í samkeppni við Kante, Fabregas og Bakayoko. Það er mitt mat að þetta sé ástæðan fyrir því að Ross Barkley hafnaði því að ganga til liðs við Chelsea og einnig ástæðan fyrir því Alex Oxlade Chamberlain sagði nei og ákvað að ganga í raðir Liverpool. Báðir tveir vissu að þeir fengu ekki margar mínútur á miðsvæðinu og í stöðunum fyrir aftan framherjann þar sem Chelsea er ágætlega mannað. Chamberlain hefði alltaf fengið margar mínútur í vængbakverðinum en það virðist vera staða sem honum hugnast ekki að spila til frambúðar. Mitt persónulega mat á því er að Uxinn sé að ofmeta eigin getu til þess að vera miðjumaður og stórlega vanmeta þann feril sem hann myndi geta átt ef hann myndi þróa leik sinn sem vængbakvörður.

Hvað Ross Barkely varðar, að þá skil ég rökin hans ágætlega, þetta er leikmaður sem hefur þokkalega hæfileika sem hann á að geta þroskað betur, hann á samt nokkuð í land með að verða byrjunarliðsmaður í Chelsea. Gleymum heldur ekki að hann var oft á tíðum á bekknum í fyrra í liði Everton. Barkely vissi líka vel að ef áhugi Chelsea hefði verið mjög mikill þá hefðu þeir keypt hann fyrr í glugganum. Síðasti leikmaðurinn sem hafnaði svo að ganga til liðs við Chelsea var Fernando Llorente. Það hefði verið mjög fínt að fá Llorente til Chelsea en í raun engin framtíðarlausn, kappinn er 33 ára og þó hann hafi skorað öll þessi mörk með Swansea í fyrra að þá eru þetta ekki kaup sem lið eins og Chelsea á að vera gera. Það sem réði því að hann valdi Spurs fram yfir Chelsea er sú staðreynd að hann fékk 2 ára samning hjá Spurs með möguleika á árs framlengingu - Chelsea var aftur á móti bara reiðubúið að bjóða 1 árs samning með möguleika á árs framlengingu, ég tel nokkuð víst að þetta hefur gert útslagið fyrir spánverjann.

Að lokum var það svo sagan endalausa með Alex Sandro. Það var greinilegt að Sandro var eitt af aðalskotmörkum Conte í sumar og skildi engan undra, þetta er einn af allra bestu bakvörðum/vængbakvöðrum í heiminum. Ef Chelsea hefði fengið Sandro værum við með mjög gott jafnvægi í hópnum okkar í öllum stöðum. Þess í stað er Kenedy sá leikmaður sem við þurfum að treysta á, fari svo að Alonso meiðist eða þurfi á hvíld að halda.

Diego Costa

Ég las frábært tíst um Diego Costa þegar allt fór í hund og kött milli hans og Conte í sumar. Það var eitthvað á þá leið að eina leiðin fyrir Diego til að fara frá Chelsea væri með einhverri ofsfenginni dramatík. Við fengum dramatík, lögfræði hótanir, linnulaus skot beggja aðila og svo hið makalausa hláturskast Antonio Conte.

Það er eflaust hægt að leyfa sér að hlæja að þessu en ég held að Bruck Buck, Roman Abramovich og Marina Granovskaia séu ekki að brosa mikið af þessu ástandi. Diego er einn launahæsti og í raun besti leikmaður félagsins á topp aldri. Sem slíkur ætti hann að vera gríðarlega verðmætur. Þrátt fyrir þetta hafa örfá lið áhuga á honum og samningsstsaða Chelsea mjög slæm þar sem ALLIR vita hversu óánægður Costa er og að hann vilji bara spila fyrir Atletico Madrid sem auðvitað eru í félagaskiptabanni. Ekki bætir svo úr skák að Diego hefur ekki mætt á fótboltaæfingu síðan í maí sl. og þykist vera æfa einn á hlaupabretti í N-Brasilíu. Nei, þetta er ekki rétta leiðin til þess að losa sig við leikmenn og hvað sem er satt og hvað er logið í þessu að þá gerði Conte einfaldlega mistök með þessum SMS-um.

Það hefði verið hægt að afgreiða þetta mál í bróðerni (er það ekki?) og þá væri þetta rugl ekki í gangi í dag. Diego Costa sem fjárfesting er orðinn meingölluð og það hefði verið hægt að koma í veg fyrir það. Diego Costa er skráður í leikmannahóp Chelsea, hann er engu að síður ennþá í Brasilíu og neitar að snúa til baka. Matt Law hjá Telepgraph segir að hann telji ólíklegt að Costa muni einhvertíma snúa aftur og vitnar þá í heimildarmenn sem standa leikmanninum nærri.

Besta mögulega lausnin er auðvitað sú að Costa og Conte hætti þessu rugli, semji frið í 4 mánuði og hann hjálpi liðinu eftir fremsta megni fram að janúar-glugga þegar At. Madrid mega kaupa leikmenn aftur – ég ætla samt að leyfa mér að vera hóflega bjartsýnn.

Nýju leikmennirnir

Antonio Rudiger – Það lá fyrir að Chelsea þyrfti að þétta raðirnar í vörninni eftir að Terry, Ivanovich og Ake yfirgáfu liðið. „Rudy“ eins og sumir kalla hann er að mínu viti mjög flott kaup, hann fékst fyrir ágætispening, er þýskur með reynslu úr ítalska boltanum – bannvænn koteill! Það sem hefur heillað mig við Rudy er að hann er snöggur virðist geta leyst af bæði bakvarðastöðuna og miðvörð. Hann hefur líka góða reynslu af því að spila í þriggja miðvarða kerfi þannig hann hefur aðlagast fljótt. Hann hefur byrjað ágætlega í þessum fyrstu leikjum, en lenti þó stöku sinnum í vandræðum í 1 vs. 1 stöðu gegn Harry Kane og Dele Alli, en það eru nú ekki beint slakir leikmenn.

Timoue Bakayoko – Það var byrjað að orða Bakayoko við Chelsea snemma á síðasta tímabili og því greinilegt að hann var alger forgangskaup hjá Chelsea í sumar. Hann virðist sniðinn fyrir enska boltann, hefur mikla líkamlega burði, er þokkalegur á boltann og virðist geta sent tuðruna ágætlega á milli manna. Það er hins vegar mikil pressa á kappanum því það er hans hlutverk að fylla skarðið sem Nemanja Matic skildi eftir sig Fólk mun miskunarlaust bera þessa tvo leikmenn saman og gagrýnisraddirnar munu byrja að kræla fljótt á sér ef Bakayoko aðlagast ekki fljótt og vel. Ég er engu að síður mjög bjartsýnn fyrir hans hönd og hef verið virkilega spenntur fyrir þessum kappa frá því ég sá hann pakka Kevin De Bruyne saman í meistaradeildinni í fyrra.

Alvaro Morata – Menn geta rifist um það fram og til baka hvort Chelsea hafi frekar átt að kaupa Romelu Lukaku eða Alvaro Morata. Staðreyndin er auðvitað sú að Chelsea reyndi fyrst að næla í Lukaku í sumar, bara til þess að láta Man Utd skjóta sér ref fyrir rass. Það var sárt þegar það gerðist en það sló heldur betur á sársaukann þegar liðið keypti Morata fyrir metfé skömmu síðar. Ég hef áður ritað töluvert um Morata en ég held að klúbburinn sé með óslípaðan demant í höndunum og byrjun hans félaginu hefur heldur betur ekki slegið á þær væntingar. Það sem mér finnst öðruvísi við Morata er persónuleikinn hans, þetta er ekki typical knattspyrnumaður og þeir sem fylgja honum eftir á samfélagsmiðlum sjá öðruvísi karakter en maður á venjast með þessum atvinnumönnum í knattspyrnu. Bæði er hann mjög einlægur og virkar laus við allan hroka og yfirgang – minnir mig að mörgu leiti á Juan Mata í fasi.

Danny Drinwater – Þegar Chelsea hóf sumarið var klárlega bara planið að selja einn miðjumann og fá annan í staðinn, þ.e. selja Matic og fá inn Bakayoko. Málin flæktust því þegar Chalobah bað um sölu eins og áður hefur verið greint frá. Það er mjög snúið að kaupa góðan leikmann sem mun engu að síður þurfa að sætta sig við að vera fjórði valkostur á eftir þremur mjög sterkum leikmönnum. Ég tel að Chelsea hafi þó tekist það með kaupunum á Danny Drinkwater.

Það er pínu fyndið að mörgum stuðningsmönnum annara liða virðast njóta þess að gera grín af þessum kaupum Chelsea á Drinkwater. Ég persónulega skil það ekki. Það er vissulega ekki neinn stjörnuglans yfir félagaskiptunum og Danny Drinkwater mun eflaust ekki selja margar treyjur einn og sér en þetta er leikmaður sem bætir verulega upp á breiddina í hópnum. Hann er þar að auki margreyndur og spilaði lykilhlutverk í Leicester ævintýrinu á sínum tíma. Drinkwater er góður miðjumaður sem þekkir sín takmörk og kemur til Chelsea vitandi það að hans nafn verður ekki það fyrsta á leikskýrslunni hverju sinni, hann mun þurfa að vinna sér inn tækifærin og er ég fullviss um að hann muni nýtast okkur vel þegar fram í sækir.

Davide Zappacosta – Ég er sá fyrsti til að viðurkenna það, ég hef aldrei séð Zappacosta spila leik og vissi ekki hver þetta var. Ég þurfti því að gera eins og Danny Rose, googla kappann og sækja þekkingu um hann annað. Það sem er sagt um hann er að hann sé jafnvígur á að spila sem bakvörður og vængbakvörður, sé með góðar fyrirgjafir og mjög gott úthald til að hlaupa upp og niður vænginn allan leikinn. Hér verðum við að treysta á dómgreind Conte og þeirra sem ýttu þessum kaupum yfir línuna. Zappacosta veit það samt janfvel og við hin að Oxlade-Chamberlain var okkar fyrsti kostur í þessa stöðu. Liðið reyndi líka að fá menn eins og Rafinha og Candreva þannig Zappacosta var ekki forgangskaup – vonum að hann komi okkur öllum á óvart eins og Marcos Alonso gerði í fyrra.

Andreas Christansen – Ég veit að margir fagna komu Christansen í hópinn. Þessi leikmaður er búinn að vera á radarnum lengi hjá okkur stuðningsmönnunum og margir sem fylgdust reglulega með honum hjá Gladbach í þessi tvö ár sem hann var á láni þar. Að fá Christansen inn er í raun eins og að kaupa nýjan mann, því hér fáum við inn þrælöflugan varnarmann sem John Terry sagði vera efni í fyrirliða Chelsea einn daginn. Hjá Gladbach hefur Christansen fengið frábæra reynslu undanfarin tvö ár, spilað í meistaradeildinni og verið fastamaður í liði sem var jafnan að berjast í topp 5. efstu sætunum í Bundesligunni. Christansen er ekki uppfyllingarefni, heldur mun hann ýta hressilega við mönnum eins og Cahill og Luiz ef þeir eru ekki að spila sinn besta leik. Það væri líka mjög gaman að sjá lánakerfið okkar bera góðan ávöxt – því nógu mikla gagrýni hefur það fengið.

Charly Musonda Jr. – Ólíkt Christansen að þá náði Charly Musonda ekki að slá neitt rækilega í gegn í sinni lándsdvöl hjá Real Betis. Upphaflega var hann lánaður þangað í janúarglugganum árið 2016 en og það lán var svo framlengt síðasta sumar. Hann fékk samt nánast ekkert að spila hjá Betis í fyrra og snéri aftur til Chelsea í janúar. Það vita allir að Musonda hefur mikla hæfileika en meiðsli og mögulega rangt hugarfar hafa gert það að verkum að hann er ekki kominn lengra á sínum ferli en raun ber vitni. Hann er núna 21 árs og fær tækifæri með aðalliðinu, það er ekkert alltof mikil breidd um vængmannastöðurnar (Hazard, Pedro og Willian) því mun hann líklega fá eitthvað að spreyta sig í deildarbikarnum og örðum slíkum leikjum. Núna er að duga er drepast fyrir Musonda, ef hann nær ekki að sína neina alvöru leiki í vetur og heilla Conte mun hann líklega verða seldur eða lánaður burt í janúar.

Einkunn

Þetta var langt því frá fullkominn leikmannagluggi hjá Chelsea og í raun var hann uppfullur af vonbrigðum. Lukaku, Chamberlain, Barkley, Llorente, Alex Sandro og jafnvel van Dijk voru orðaðir við liðið en allt kom fyrir ekki. Vissulega fékk Chelsea nokkra sterka leikmenn til liðs við sig eins og greint hefur verið frá hér að ofan en m.v. þær væntingar sem Conte hafði fyrir sumargluggann þá tel ég að hann sé heldur vonsvikinn.

Þá er það spurning hver beri ábyrgðina? Er hægt að kenna einhvejrum um? Eða vorum við bara svona óheppnir í þetta sinn? Það er mitt mat að Roman Abramovich hafi ekki lengur áhuga á að borga ofsafengið yfirverð fyrir leikmenn. Það hefur til að mynda verið staðfest að Chelsea hafnaði því algerlega að borga Mino Raiola, umboðsmanni Lukaku, gríðarlega háar fjárhæðir í tenglsum við þau kaup. Man Utd var hins vegar reiðubúið að greiða það gjald. Einnig vildi Chelsea ekki bjóða 50 milljónir punda í Kyle Walker, eins og Man City gerði í sumar og gekk þannig frá þeim kaupum. Þetta er í raun og veru nýr veruleiki, að önnur ensk lið séu að yfirbjóða Chelsea. Það er ekki þar með sagt að Roman vilji ekki eyða alvöru fjárhæðum, þvert á móti keyptum við Morata fyrir metfé og vorum reiðubúnir að bjóða allt að 65 milljónir punda í leikmann eins og Alex Sandro.

Ég set líka spurninarmerki við Marina Granovskaia, en hún er sú sem hefur yfirumsjón með samningaviðræðum við önnur lið. Mér líður eins og að reynslumeiri einstaklingur hefði ekki látið þetta Lukaku mál eiga sér stað og að Alex Sandro díllinn hefði náð fram að ganga með réttum aðgerðum fyrr í glugganum. Þetta eru auðvitað bara getgátur því það er auvðitað fullt af smáatriðum sem við höfum ekki hugmynd og gerast bakvið tjöldin.

Mesti klaufaskapurinn var svo að selja frá sér og lána burtu leikmenn án þess að vera komnir með aðra leikmenn til að leysa þá af hólmi. Hvers vegna í ósköpunum vorum við að flýta okkur að selja bæði Chalobah og Matic? Ég gæfi líka mikið fyrir að hafa Loftus-Cheek í hópnum í dag – hann fengið nóg af tækifærum, bæði á miðjunni og í stöðunum fyrir aftan framherjann. Þessi klaufaskapur gerði það að verkum að við vorum alltof þunnskipaðir í byrjun móts þegar nokkur meiðsli og bönn voru að herja á okkur. Svona hlutir mega hreinlega ekki eiga sér stað hjá liði eins og Chelsea og setur okkur í verri samningsstöðu gagnvart öðrum liðum.

Að lokum, ég hefði viljað sjá liðið fara á eftir leikmanni eins og Riyad Mahrez, hann var með samkomulag við Leicester um að fá að fara ef lið af okkar stærðargráðu kæmi gott tilboð. Hann gæti nýst okkur vel og með hans kröftum gætum við leyft okkur að hvíla leikmann eins og Hazard oftar.

Á skalanum 0-10 gef ég þessum glugga 4,5 í einkunn. Ég held að kaupin okkar séu nokkuð góð en okkur vantar tvo leikmenn til þess að vera með breidd til að berjast um titla á öllum vígstöðum – það er mitt mat.

Keep the blue flag flying high


bottom of page