top of page
Search

Óveðurský yfir Stamford Bridge?


Chelsea spilaði sinn fyrsta opinbera leik um liðna helgi á nýju keppnistímabili. Jafnan er alltaf mikil eftirvænting eftir þessum leik, sérstaklega ef þeir eru á heimavelli. Samt sem áður var eitthvað skrítið við lið Chelsea í þessum leik, það var eins og óveðurský væri yfir liðinu. Allir vitum við hvernig fór, ríkjandi meistarar Chelsea töpuðu 3-2 fyrir Burnley - einu af „litlu“ liðunum í deildinni. Einhverjir benda á að allt hafi gengið á afturfótunum hjá Chelsea í þessum leik og að ekki megi lesa of mikið í þessu einu úrslit. Aðrir benda á nokkrar sláandi staðreyndir varðandi leikmannahóp liðsins og minna á hvernig klúbburinn svaf á verðinum í aðdraganda tímabilsins 2015/16.

Miklu minni breidd!

Það má færa rök fyrir því að í byrjunarlið Chelsea hafi „vantað“ fimm fastamenn frá því á síðasta tímabili. Þetta eru Matic (seldur til Man Utd), Diego Costa (í útlegð), Moses (í banni), Pedro (meiddur) og svo Hazard (meiddur). Þeir leikmenn sem keyptir voru fyrir Matic og Costa byrjuðu hvorugir leikinn og í raun voru bara tvö ný andlit í byrjunarliðinu, þeir Jeremie Boga - tvítugur leikmaður sem ekki komst í byrjunarlið Granda í fyrra og svo Antonio Rudiger sem keyptur var frá Roma. Varamannabekkur Chelsea í umræddum leik var eftirfarandi: Caballero, Christansen, Morata, Musonda, Kenedy, Scott og Tomori. Þetta er auðvitað orðin spurning sumarsins, hvernig gerðist þetta? Hvers vegna er hópurinn orðinn svona þunnur?

Ef bornir eru saman leikmannahópar Chelsea frá 1. Sept 2016 miðað við daginn í dag er munurinn sláanlegur:


2016/17 hópurinn


Núverandi hópur

Inn í þessa mynd vantar svo Natan Ake, sem var kallaður til baka í janúar og seldur burt frá félaginu í sumar. Einnig getur mögulega vantað einhverja yngri leikmenn á annan hvorn staðinn en þetta er alla vega grófa myndin. Til gamans eru svo rauðmerktir leikmenn í núverandi hóp sem annað hvort verða í banni eða eru meiddir fyrir næsta leik gegn Spurs

Ef þetta er skoðað gaumgæfilega er fjöldi leikmanna er ekki endilega málið, heldur eru það leikmennirnir sjálfir – gæðin hafa stórlega minnkað. Tomori er 19 ára og spilaði aðeins níu leiki með Brighton í fyrra, sem fyrr segir var Boga inn og út úr liðinu með Granda og Kyle Scott hefur aldrei spilað „fullorðins fótbolta“ á ævi sinni. Musonda er svo annar leikmaður sem margir binda vonir við en er tæplega að fara setja alvöru pressu á Pedro eða Willian. Einnig er Conte búinn að gefa það út að Kenedy muni fara frá liðinu áður en að leikmannaglugginn lokar svo þessi staða er í raun verri en raun ber vitni. Niðurstaðan er sú að búið er að taka marga reynda leikmenn úr hópnum sl. 12 mánuði og lítið markvert komið inn í staðinn. Þessir leikmenn tryggðu gæðin í hópnum og settu pressu á þá sem fyrir voru í byrjunarliðinu. Félagið hefur til að mynda aldrei keypt neinn leikmann í staðinn fyrir Oscar, þar vorum við með leikmann sem klárlega jók bæði breiddina og gæðin í hópnum. Í heildina eru þetta tólf (!) leikmenn sem eru farnir í önnur lið frá því fyrir 12 mánuðum síðan.

Hver ber ábyrgð á þessu?

Hérna verður stjórnin að taka fulla ábyrgð, hvort sem það er Bruce Buck, Emenelo eða Granovskaia – mér er alveg sama hver, planið er einfaldlega ekki að ganga upp. Í kjölfar síðasta tímabils sagði Conte að menn þyrftu að vera „kaldir“ í að meta stöðuna á leikmannahópnum og tók það sérstaklega fram að Chelsea væru með mjög góð gæði en skorti breidd – þremur mánuðum síðar sitjum við uppi með mun verri leikmannahóp en 12 mánuðum áður. Bæði gæði og breidd hafa minnkað. Stjórnendur félagsins bera ábyrgð á því að Chelsea FC mætir engan veginn tilbúið til leiks þetta tímabilið – það er alger skömm að því.

Conte ber ekki nokkra ábyrgð á þessu enda hefur hann marg oft sagt að hann komi ekki nálægt þessum málum, hann segir sína skoðun enn lokaákvörðunin liggur alltaf hjá klúbbnum sjálfum.

Hvað þarf að gerast?

Chelsea þarf að kaupa 3-4 leikmenn fyrir 1. sept. nk. Þessir leikmenn verða að vera reyndir og með gæði, bara þannig fylla þeir upp í þau skörð sem höggvin hafa verið í hópinn. Minn persónulegi (raunhæfi) draumur væri þessi:

Alex Oxlade Chamberlain – 1 ár eftir að samningi. Getur spilað margar stöður.

Alex Sandro – Þarf að biðja um sölu svo þetta gangi eftir.

Grzegorz Krychowiak – Fæst líklega ódýrt frá PSG, margreyndur miðjumaður.

Ross Barkley – Gæti spilað bæði á miðjunni og fyrir aftan framherja.

Ef þetta gengi upp, eða leikmenn í amk þessar stöður, þá væri leikmannalaugin okkar svona:


Vandamálið virðist vera að stjórnendur Chelsea vilja ekki ofgreiða fyrir leikmenn og kjósa þess í stað að fara í störukeppni fram á síðustu mínútu við hina klúbbana sem orsakast í því leikmannakaupin ganga mjög seint í gegn. Að mínu viti væri ekki alslæmur kostur að borga 10-15% hærra verð og fá leikmennina strax líkt og Man City gerir í tilfelli Walker, Mendy og Bernardo Silva, þarna er ég viss um að Antonio Conte sé sammála mér.

Hvað gerir Conte?

Mesta hættan er auðvitað sú að þessi leikmannagluggi fari í vaskinn og að Conte yfirgefi liðið. Conte er mikill prinsipp maður að það þarf engan sérfræðing til að sjá það utan á honum að hann verulega ósáttur með stöðu mála, hann er meira að segja hættur að klæða sig í jakkaföt fyrir leiki og lætur skoðun sýna óspart í ljós í viðtölum – liðinu vantar liðsstyrk. Conte vill gera Chelsea að liði sem getur barist um titla á öllum vígstöðum, eins og staðan er í dag myndi núverandi hópur tæpast gera atlögu að enska meistaratitlinum, hvað þá meistaradeildinni. Leikmenn liðsins eru líka farnir að tjá sig um þetta sbr. viðtöl við Azpilicueta og Cahill, þar sem þeir báðir töluðu nokkuð opinskátt um að liðinu vantaði liðsstyrk.

Hvernig sem fer verða stjórnendur Chelsea FC að draga lærdóm af þessum leikmannaglugga, jafnvel þó 4-5 nýir leikmenn ganga til liðs við hópinn þá er þetta búið að taka of langan tíma sem aftur orsakar þennan mikla pirring sem myndast hefur innan klúbbsins og skilar sér beinustu leið inn á völlinn.

Niðurstaða: Roman verður að rífa upp veskið!

KTBFFH


bottom of page