Keppni: Úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: 8. desember kl:16:30
Leikvangur: Tottenham Hotspurs Stadium, London
Dómari: Anthony Taylor
Hvar sýndur: Síminn Sport
Upphitun eftir: BFR - Bjarni Reynisson
“We got our Chelsea back!” sungu þeir úr stúkunum á St. Mary’s vellinum á miðvikudag þegar að Chelsea vann sannfærandi 5-1 sigur á Southampton. Það dró til tíðinda strax á sjöundu mínútu þegar að Enzo Fernandez tók hornspyrnu sem rataði beint á pönnuna á Disasi sem skoraði af örstuttu færi. Endurreisnin á Enzo er búinn að vera gífurleg síðan að Maresca færði hann í “miðvikumennina” (nýja nafnið mitt yfir “B-liðið”). Hann fór frá því að efast um hvort hann yrði í byrjunarliðinu í Úrvalsdeildinni yfir í að vera eitt af fyrstu nöfnunum á blaðið. Við erum loksins að sjá aftur sama Enzo og við sáum fyrstu sex mánuðina eftir að hann skrifaði undir hjá okkur, og þann Enzo sem að stuðningsmenn Argentínu sjá þegar hann spilar fyrir landið sitt. Hann var þó reyndar skúrkurinn rúmum fjórum mínútum síðar þegar að Walker-Peters leikmaður Southampton komst upp á endalínu og lagði boltann á Aribo sem að jafnaði metin. Hann mætti galvaskur og gjafmildur Joe Lumley, markmaður dýrlinganna, sem að átti slaka sendingu á 17. mínútu sem Madueke komst inn í og rúllaði boltanum snyrtilega á Nkunku sem að kom okkur aftur í forystu. Hann var svo sjálfur á skotskónnum á 34. mínútu með laglega afgreiðslu í bláhornið.
Það muna eflaust margir eftir leiknum gegn Tottenham 22/23 tímabilið þegar að seint í uppbótartíma á Spurs hornspyrnu þar sem Christian Romero rífur í hár Cucurella með þeim afleiðingum að hann fellur til jarðar. Dómari leiksins, Anthony Taylor, og VAR dómarinn Mike Dean sáu ekkert að atvikinu og í kjölfarið skora Spurs jöfnunarmark. Atvik sem að olli því að allt sauð upp úr á milli Thomas Tuchel og Antonio Conte og ég er viss um að þeir voru margir stuðningsmenn Chelsea sem að deildu tilfinningum Tuchel. Dómarar ensku úrvalsdeildarinnar, sem hafa ekki “agenda” á móti Chelsea vita að það hins vegar að bannað er að rífa í hár leikmanna. Því fékk Jack Stephens réttilega að líta rauða spjaldið fyrir þær sakir á 34. mínútu. Á undanförnum tímabilum hefði þetta verið ákveðið áhyggjuefni þar sem að við áttum oft á tíðum erfitt með að brjóta niður lið sem lúrðu neðarlega á vellinum í skotgrafar varnarleik. Það er þó alls ekki vandamálið undir stjórn Enzo Maresca og bættum við tveimur mörkum áður en blásið var leikinn af. Það fyrra eftir glæsilega stungu sendingu Enzo Fernandez á Nkunku sem að dansar í kringum tvo leikmenn Southampton og kemur lausri tilraun á markið sem virðist ætla að leka inn áður en Cole Palmer mætir að eignar sér markið. Og það seinna eftir frábæra afgreiðslu hjá Sancho sem að skorar sitt fyrsta mark fyrir Chelsea. Þægileg þrjú stig sem færir okkur í annað sæti deildarinnar, yfir Arsenal í töflunni á markatölu. Sóknarleikurinn í topp málum og sitjum við efstir í tölfræðinni um mörk skoruð í deildinni eftir 14 umferðir með 31 mark. Allt eins og það á að vera og rík ástæða fyrir að syngja “We got our Chelsea back”.
Við ferðumst yfir Lundúnir frá vestri til norðurs og heimsækjum Þriggjastigastræti (e. Three Point Lane) á sunnudaginn kemur þegar að við vitjum Tottenham Hotspur. Fólk spyr sig oft hvort að London sé rauð eða blá, en enginn spyr hvort að London sé hvít. Enda þarf að líta óra langt aftur í tímann til að finna síðasta titil sem Spurs vann, eða til ársins 2008. Þess má til gamans geta að Spurs fjarlægði svo titilinn úr “logo-inu” sínu nú fyrir skemmstu, þann eina sem að þeir hafa notið síðustu 16 árin.
Chelsea hefur átt góðu gengi að fagna gegn Tottenham. Í 64 viðureignum síðan að Úrvalsdeildin var sett á laggirnar þá höfum við tapað aðeins átta (W35, D21, L8). Undir stjórn Postecoglou hefur uppleggið hjá Spurs verið að spila með gífurlega háa línu. Það spilar vel upp í hendurnar á okkur þar sem að við höfum ösku fljóta menn eins og Jackson, Neto og Madueke sem Cole Palmer og Enzo ættu ekki að vera í neinum vandræðum með að finna á bak við línuna. Þá hefur varnarleikur Spurs ekki verið frábær undanfarna leiki og þá sér í lagi vegna meiðsla Vicario og van der Ven. En sá síðarnefndi gæti þó verið orðinn heill fyrir upphafs flaut á sunnudaginn kemur. Okkar menn munu ekki njóta góðs af hraðanum í Misha Mudryk því að hann er lasinn kallinn. Fofana og James hrjást báðir af kvilla aftan í læri en að þessum utan aðskildum þá eru allir heilir og tilbúnir að takast á við þétta desember dagskránna. Við mætum meiðsla hrjáðu Tottenham liði sem hefur unnið einn af síðustu fimm. leikjum sínum (W1, D2, L2), á meðan erum ósigraðir í síðustu fimm. (W4, D1), með markatöluna 13-3. Þetta er liðið sem að ég held að byrji leikinn:
Sanchez verður í markinu, jafnvel þótt að Jörgensen átti þrælfínan leik á miðvikudag. Caicedo í hægri bakverði, miðvarðarparið myndað af Tosin og Colwill, Cucurella í vinstri bakverði. Romeo Lavia og Enzo á miðjunni. Madueke á hægri kantinum, Palmer í tíunni, Neto á vinstri kantinum og að sjálfsögðu Jackson uppi á topp. Mín spá er að við vinnum leikinn 3-0 með mörkum frá Palmer, Madueke og Jackson.
Áfram Chelsea og KTBFFH!!
Það er vert að taka fram, fyrir áhugasama, að nýskráningu/endurnýjun í Chelsea klúbbinn fyrir þetta tímabil lýkur 12. desember. Eindregið er mælt með að skrá sig á www.chelsea.is undir “Skráning” eigi síðar en 10. desember, sérstaklega ef þið lesendur góðir hafið áhuga á að fara á leiki með Chelsea í vetur, þá er Chelsea klúbburinn besti milligönguliðurinn með að útvega miða.
Opmerkingen