Keppni: Enska úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Sunnudagurinn 25. ágúst kl: 13:00
Leikvangur: Molineux Stadium, Wolverhampton
Dómari: Darren England
Hvar sýndur: Síminn Sport
Upphitun eftir: BFR - Bjarni Reynisson
Það er mikið að frétta af leikmannamálum þessa dagana, eðlilega. Conor Gallagher kaupin svo gengu eftir, nema við fengum Joao Felix aftur til okkar. Það virðist einungis hafa verið gert á viðskiptalegum forsendum. Romelu Lukaku er loksins horfinn á braut fyrir 35 milljónir evra til Napoli, sem með árangurstengdum greiðslum gætu náð yfir 45 milljónir í heildina, eins og stjórnendur alltaf lagt upp með. Einnig er 30% söluklásúla í þessum samningi, þannig að það er aldrei að vita nema meira komi í kassann á næstu árum. Romelu Lukaku skilur ekki mikið eftir sig. Sennilega mesta flopp í sögu Chelsea, og af nógu er að taka. Hár verðmiði, daðrið í viðtalinu við Inter, ósættið við Thomas Tuchel og hvernig hann eitraði andrúmsloftið í klefanum og samband sitt við stuðningsmenn Chelsea, Inter og svo framvegis. Vertu blessaður og komdu aldrei aftur. Í öðrum fréttum er það helst að Armando Broja lánið til Ipswich er í uppnámi. Eitthvað kom upp á læknisskoðun hjá þeim albansk ættaða leikmanni. Það snertir hásinameiðslin sem hann varð fyrir hér um árið. Ipswich vilja meiri afslátt af 30 milljón kaupklásúlunni eftir því sem við komumst næst, annars verða aðrar lausnir fundar. Raheem Sterling missti númerið sitt til Pedro Neto og líklegt er að hann verði seldur og þar er Aston Villa víst efst á baugi en Juventus eru líka í samtalinu. Tino Anjorin - bjartasta vonin í unglingaliðinu fyrir nokkrum árum er á leiðinni til Empoli á Ítalíu. Því miður varð meiðslahrjáður ferill hans honum fjötur um fót. Baskinn geðþekki, Kepa Arrizabalaga virðist vera á leiðinni til Bournemouth. Það verður þá annar leikmaður sem kveður sem hálfgert flopp - þar sem hann var keyptur sem dýrasti markvörður heims, og er líklega það ennþá. Verður helst minnst fyrir að neita að fara útaf þegar Maurizio Sarri vildi skipta honum á Willy Caballero, og síðan að láta Virgil Van Dijk skora á sig í hornið sem hann stóð í vítaspyrnukeppni.
Það er stutt á milli leikja þessa dagana og okkar menn eru aftur í eldlínunni á sunnudag þegar þeir halda til Vestur-Miðlandanna á Molineux völlinn í Wolverhampton. Úlfarnir hafa reynst okkur erfiðir viðureignar á undanförnum misserum. Þá sér í lagi þegar þeir eru á heimavelli sínum, Molineux, þar sem síðasti sigur Chelsea manna kom 19/20 tímabilið þegar að Tammy nokkur Abraham skoraði þrennu í 5-2 sigri. Í síðustu 10 viðureignum liðanna þá hafa þrír leikir unnist, þrír endað í jafntefli og við þurft að lúta lægra haldi fjórum sinnum sem var extra súrt síðasta Aðfangadag. Hamborgarhryggurinn var einfaldlega ekki jafn góður með það óbragð enn í munninum.
Völlurinn er þó ekki sama vígi og hann var dagatalsárið 2023 þar sem að þeir töpuðu aðeins fjórum leikjum af 20. Því það sem af er árinu 2024 hafa þeir tapað sex leikjum af níu.
Þetta er annar leikurinn okkar í ensku deildinni og eftir tap gegn Man City í fyrsta leik þá væri afskaplega gott að sækja þrjú stig, byrja að byggja upp mómentum og sigurhefð. Ég vil meina að Úlfarnir voru að selja okkur sinn besta mann í Pedro Neto og leit hann gífurlega vel út þegar hann kom af bekknum í fyrsta leik tímabilsins og einnig gegn Servette. Maresca hlýtur að halda honum í byrjunarliðinu gegn sínum gömlu félögum.
Sveiflukenndir, það er lýsingarorðið sem að ég myndi nota yfir Chelsea þessa stundina. Leikmannahópurinn sveiflast, stjórarnir koma og fara en alltaf höfum við gæði í hópnum. Undirbúningstímabilið var ekki alveg eins og við hefðum óskað okkur hvað úrslitin varðar og persónulega vil ég fara að sjá fleiri mörk úr opnum leik. Þegar að stjórinn leitar að besta byrjunar liðinu sínu finnst manni skrítið að margar mínútur fari til leikmanna sem eru svo orðaðir í burtu frá félaginu um leið og tímabilið byrjar, og nýir menn keyptir inn í þeirra stað. Menn eins og Sterling og Madueke sem að litu þrusu vel út á undirbúningstímabilinu ekki í hóp eða geymdir á bekknum gegn City. Þetta hlýtur að skapa óróa í leikmannahópnum og þó að 26 manna hópurinn sé farinn að taka á sig einhverja mynd þá þurfum við að losa þá leikmenn sem á að losa sem fyrst.
Stöðugleiki er það sem okkur vantar. Fyrsta skref, er að múra fyrir í vörninni. Þarf að byrja hjá markmanninum sem verður að geisla af sjálfsöryggi í sínum aðgerðum því að það færir ró yfir í varnarlínuna. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Maresca ætli að halda sig við Sanchez sem fyrsta valkost eftir að Jörgensen leit vel út og hélt hreinu í Sambandsdeildinni.
Annað skref, jafnvægi inn á miðsvæðið. Í leiknum gegn City þá byrjuðu Caicedo, Fernandez og Lavia allir á miðsvæðinu og þó að þeir séu allir frábærir leikmenn þá ættu líklega bara tveir af þeim þrem að byrja hjá okkur. Þetta þýddi að Nkunku var settur á vinstri vænginn í staðinn fyrir að vera notaður í einni af 8 stöðunum, þar sem að ég tel að hann nýtist best. Svo er spurningin hvort að Cole Palmer ætti að taka hina 8 stöðuna svo að við gætum verið með hreinræktaðann kantmann á hægri vængnum og sköpunarmáttur Palmer myndi blómstra meira. Það er akkúrat þriðja skrefið, markaskorunin. Ég hef gífurlega trú á þeim leikmönnum sem að við höfum í sóknarleiknum og þegar þetta smellur, þegar leikmennirnir kynnast hvorum öðrum betur á vellinum og við byrjum að raða inn mörkunum leik eftir leik, þá verðum við lið sem að enginn vill spila við.
Ólseigir Úlfarnir, eins og Tómas Þór myndi kalla þá, eru andstæðingar okkar. Síðan að þeir komu upp í úrvalsdeildina tímabilið 18/19 hafa þeir verið að spila skemmtilegan fótbolta og enduðu í 7. sæti í deildinni fyrstu tvö árin, fjögur af síðustu fimm tímabilum hafa þeir þó endað í neðri hluta töflunnar.
Þeirra skeinuhættasti maður er Matheus Cunha sem gæti valdið okkur usla með hlaupum úr djúpinu með boltann þar sem hann er góður að rekja knöttinn. Þá hefur markvörður þeirra José Sá einnig verður öflugur milli stanganna hjá þeim og þurfa okkar bestu menn að reima skotskóna fast á sig til að koma knettinum framhjá honum.
Okkar menn ferðast með meðbyrinn af góðum sigri gegn Servette á heimavelli þrátt fyrir að liðið hafi ekki litið frábærlega út þá er Maresca ennþá í tilraunastarfsemi með liðið. Það er ennþá smá órói yfir öftustu línunni sem er vel skiljanlegt miðað við að Tosin, Disasi, Veiga og Badiashile hafa aldrei byrjað leik saman. Jörgensen leit vel út í rammanum og getum við í raun þakkað honum og þeirri staðreynd hvað Servette nýttu færin sín illa að við héldum hreinu. Mudryk greyið er ennþá frekar týndur en ég er sannfærður að hann muni verða mikilvægur leikmaður fyrir okkur einn daginn, hvort að hann þurfi eitt gott lán eða hreinlega bara traust frá stjóranum sínum til að bæta sig er ekki gott að segja.
Fyrra markið okkar koma eftir laglega pressu frá Guiu þar sem hann vann boltann hátt á vellinum sendi á Dewsbury-Hall sem að þræddi boltann inn fyrir öskufljótann Nkunku sem að nældi í vítaspyrnu sem að hann tók svo sjálfur. Guiu uppskar svo næstum því ávöxt sinnar eigin pressu þegar hann vann boltann af Frick, markmanni Servette, þegar hann hugðist að hreinsa boltann fyrir utan eigin vítateig. Skotið heppnaðist því miður ekki jafn vel og pressan og náði Frick að fleygja sér fyrir skotið.
Mín spá fyrir leikinn er 2-1 sigur, Madueke fær tækifæri í byrjunarliðinu á hægri vængnum og Neto á vinstri. Jackson uppi á topp. Nkunku og Palmer í áttunum með Caicedo þar á bakvið. Varnarlínan verður svo Gusto, Fofana, Colwill og Cucurella. Væri til í að sjá Jörgensen í markinu en held að Sanchez fái traustið áfram í deildinni.
Palmer setur eitt og Neto skorar á endurkomunni á Molineux.
Áfram Chelsea! KTBFFH!
Við viljum svo hvetja lesendur til að skrá sig í Chelseaklúbbinn á Íslandi. Árgjaldið er hófsamt og það gefur ykkur aðgang að miðakaupum á leiki með Chelsea, bæði heima og að heiman. Allar leiðbeiningar eru á www.chelsea.is
Comments