top of page
Search

Úrslitaleikurinn um meistaradeildarsætið vannst!


Þvílík hamingja! Þvílík veisla!


Loksins eftir mjög erfiðara daga sýndi Chelsea liðið alvöru karakter! Eins og undirritaður bjóst, við þá stilltu liðin upp svipuðum hópum. Tuchel hélt óbreyttri varnarlínu. Kai Havertz meiddist rétt fyrir leik og var ekki með, sem gaf Timo Werner aftur tækifæri í byrjunarliðinu.


Leikurinn þróaðist þannig að Chelsea tóku öll völd á vellinum og þjörmuðu vel að Leicester. Strax eftir 8 mínútna leik var liðið búið að fá fjölmörg færi, þar af nokkur á rammann. Sannkölluð einstefna að marki Leicester. Á 18. mínútu leiksins átti sér stað umdeilt atvik, þar sem Timo Werner hljóp á blindu hliðina hjá varnarmanni Leicester sem var við hreinsa boltann burt. Timo komst í veg fyrir manninn sem endaði á að sparka hann niður innan vítateigs. Mike Dean dómari leiksins, ásamt VAR sáu þó ekki ástæðu til dæma vítaspyrnu. Á 21. mínútu leiksins skorar Timo Werner eftir flott samspil og hnitmiðaða stungusendingu inn fyrir vörnina. Timo fagnar, liðsmenn fagna, Thomas Tuchel fagnar, áhorfendur fagna. VAR dæmið markið af vegna rangstöðu. Þvílíkt högg í magann.


Leicester fá engin færi til að veita nokkra viðspyrnu. Það reynir ekkert á Heimaklettinn í markinu okkar. Chelsea heldur áfram að þjarma að marki andstæðingana og uppsker annað mark uppúr hornspyrnu. Aftur það Timo Werner að verki. Allir fagna aftur, leikmenn, þjálfarar og við í stofunni heima. En Timo var ekki lengi í paradís. VAR tóku markið af okkur AFTUR! Í þetta skiptið fór boltinn í höndina á Timo. Sama gerðist í aðdragana marksins sem Leicester skoruðu gegn Chelsea í FA bikarnum. Núna á þessu augnabliki leið okkur öllum eins og heimurinn væri á móti okkur.


Þetta líktist einhverju samsæri sem vakti strax óþægileg áfallastreituviðbrögð sem Tom Henning Øvrebrø veitti okkur svo eftirminnilega árið 2009. Liðin skildu jöfn í hálfleik en Chelsea mun sterkari aðilinn.


Seinni hálfleikurinn hófst eins og hinum fyrir lauk. Strax eftir nokkrar mínútur skoraði Chelsea aftur eftir hornspyrnu, þar sem boltinn barst á fjarstöngina þar sem Antonio Rüdiger náði að hnykkja boltanum í netið með mjöðminni. Strax eftir þetta fór hiti að færast í leikinn með auknum grófari brotum. Það fór svo þannig að á 66. Mín var brotið á Timo. Í þetta skiptið dæmdi VAR Chelsea í hag og vítaspyrna var dæmd sem Jorginho skoraði úr með öruggum hætti. Við þetta fóru Leicester menn í gang og meira jafnræði var á liðum. Það bar svo til tíðanda að þeir unnu boltann af okkar leikmönnum á okkar vallarhelming og náðu að senda boltann á Kelechi Iheanacho sem skoraði með föstu skoti í fjær hornið.


Nokkur spenna myndaðist eftir þetta sem endaði með að átök brutust út milli leikmanna í uppbótartímanum. Antonio Rüdiger var miðpunkturinn í þeim átökum, en fram að þessu hafði sveitaómaga-elementið komið upp í honum sem virtist vera að hann átti í stimpingum við Ricardo Pereira og Daniel Amartey hjá Leicester. Það lá við að slagsmál myndu brjótast út en það leystist fljótt – hinsvegar verður að segjast að þetta tók upp nánast allan uppbótartímann þannig að leikar enduðu 2-1 verðskuldað fyrir Chelsea.


Umræðupunktar

  • Vörnin spilar alltaf betur þegar Mendy er í markinu. Augljós munur þegar leikurinn í kvöld er skoðaður í samhengi við úrslitaleik FA Cup.

  • Þýski sveitaómaginn, einni þekktur sem þýska stálið, Antonio Rüdiger var í miklum ham. Hann var mjög fastur fyrir í varnarleiknum og sýndi hvað eftir annað baráttu viðhorf, bæði í boltanum en einnig þegar kemur að stimpingum. Tel nokkuð ljóst að hann er fljótur að fara í taugarnar á andstæðingum – og hann sleppur yfirleitt við spjöld.

  • Timo Werner – óheppnasti maður leiktímabilsins. Eftir hrikalega brösulegan leik um helgina skilaði hann fínni frammistöðu og vann virkilega vel inn fyrir laununum í kvöld. Einhverntímann hlýtur að koma að því að hann fari að raða inn mörkunum, en enginn getur ásakað hann um að leggja sig ekki fram.

  • Thomas Tuchel kom á óvart með því að setja Azpilicueta aftur í vængbakvörð og Reece James í hægri miðvörð. Azpilicueta hafði lítið fram að færa í sóknarleiknum og tengdi illa við Mason Mount.

  • Það var hrein unun að horfa á það mikla skap sem er í liðinu þegar lætin byrjuðu undir lok leiksins. Chelsea fóru þar fram sem ein hersveit og ekki skemmdi þar fyrir þegar vitleysingurinn Daniel Amartey mætti á svæðið. Reynsluboltinn T. Silva fór þar fyrir okkar mönnum og lét þann ágæta mann heyra það vel á móðurmálinu - þetta er skap sem hefur vantað í þetta lið.

  • Með þessum sigri eru Chelsea í góðri stöðu fyrir lokaumferðina, sigur á Aston Villa tryggir okkur 3. sætið í ensku Úrvalsdeildinni. Hins vegar megum við ekki misstíga okkur neitt í þeim leik, því Liverpool og Leicester gætu ennþá skotist fram úr okkur ef allt færi á versta veg. Það er því mikil spenna fyrir loka umferðina.


Einkunnir leikmanna

Eduoard Mendy – 6

Frekar rólegt að gera framan af leiknum en ágætur á boltanum. Átti ekki neina sök í markinu.


Reece James – 7

Skilaði sínu hlutverki vel og var mjög traustur, gæti orðið frábær í þessu stöðu hægri miðvarðar þegar fram líða stundir.


Thiago Silva – 7

Var hætturlegur í föstum leikatriðum og átti fínan leik, er þvílíkur leiðtogi í þessu liði.


Antonio Rüdiger – 8 (Maður leiksins)

Frábær, bæði í vörn og sókn. Átti það til að hlaupa með boltann upp völlinn og valda smá usla. Skoraði fínt mark uppúr föstu leikatriði.


Cesar Azpilicueta – 6

Fínn leikur varnarlega hjá Cesar, en afleitur sóknarlega. Ekki við hann að sakast, enda hefur hann ekki verið mikill sóknarbakvörður í gegnum tíðina.


Ben Chilwell – 7

Mjög góður leikur hjá Chilly. Alltaf ógnandi á vinstri kantinum og stóð sig prýðilega í varnarvinnu.


N’Golo Kante – 6

Rólegur leikur hjá N’Golo – átti gott skot í byrjun leiks sem Kasper Schmeichel varði. Þurfti að fara af velli á 30. mín. Leggjumst nú á bæn að það sé ekki alvarlegt.


Jorginho – 8

Frábær leikur hjá Jorginho á miðjunni. Steig varla feilspor og setti vítið mjög öruggt.


Mason Mount – 7,5

Solid frammistaða hjá Mason Mount. Alltaf hættulegur og kom sér oft í mjög góðar leikstöður og í nokkur skipti mjög ákjósanleg færi, mjög óheppinn að skora ekki þegar Kasper varði frábærlega frá honum.


Christian Pulisic – 6

Ekkert sérstakur leikur hjá Pulisic í dag. Höfum séð hann betri.


Timo Werner – 7,5

Frábær vinnusemi allan leikinn. Hefði mátt passa sig betur í rangstöðunni en var alltaf ógnandi. Hlýtur að vera pirraðasti leikmaður Evrópu þessa dagana, óheppnin er ótrúleg.


Mateo Kovacic – 6

Kom inná fyrir N’Golo Kante í fyrri hálfleik og það var ekki að sjá að hann hefði verið meiddur frá því í apríl. Gerði hins vegar slæm mistök sem leiddu til þess að Leicester City skoruðu markið sem þurfti til að gera leikinn aftur spennandi.


Kurt Zouma – spilaði of lítið til að fá einkunn

Olivier Giroud – spilaði of lítið til að fá einkunn


KTBFFH

- Hafsteinn Árnason

Комментарии


bottom of page