top of page
Search

Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu - Upphitun!

Keppni: Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 29.Maí kl 19:00

Leikvangur: Estadio do Dragao

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport (opin dagskrá). BT Sport ofl.

Upphitun eftir: Snorra Clinton



Chelsea

Góðir hálsar, spennið beltin, setjið á ykkur axlabönd, finnið hjálm, reimið skónna og haldið ykkur fast. Það er komið að því…ÚRSLITALEIKUR Meistaradeildarinnar, lang stærsti leikur sem í boði er fyrir nokkurt Evrópulið. Leikur sem við erum búin að bíða eftir í 9 ár. Ekkert í upphafi leiktíðar benti til þess að okkar ástkæra knattspyrnulið myndi komast þetta langt í keppninni, hingað erum við komin samt sem áður komin og mikið ofboðslega er það skemmtilegt!


Áður en lengra er haldið langar mig að nýta tækifærið og reka smá lokanagla og súmmera tímabilið aðeins saman. Þetta tímabil er búið að vera ein mesta rússíbanaferð ævi minnar. Sem stuðningsmaður, hef ég fylgt liðinu í gegnum myrkur og mannaskít sem og yndislegar sigurvímur. Við höfum upplifað sæta sigra, súr töp, grátleg jafntefli og leikmenn sem ná ekki þeim hæðum sem búist var við fyrir tímabilið. Einnig ógleymdum þjálfaraskiptum á miðri leiktíð, ein mesta goðsögn klúbbsins Frank Lampard látinn taka pokann sinn og í hans stað mætti "Bragðarefurinn" og Fantasy böðullinn Thomas Tuchel. Á hálfu tímabili hefur honum tekist að rífa liðið frá mikilli lægð í 9. sæti upp í það fjórða og komið okkur í tvo úrslitaleiki. Það voru eflaust gríðarlega margir stuðningsmenn ósáttir við brottvísunina og ráðningu Mr. T. En hann hefur heldur betur sýnt það að þessi ákvörðun eins erfið og hún var hefur reynst það rétta í stöðunni.


Nóg komið af röfli, snúum okkur að máli málanna, sjálfan úrslitaleikinn og ferðina okkar þangað. Þegar dregið var í riðla á sínum tíma var nokkuð augljóst að eina spurningin væri hvort liðið myndi sigra riðil E, Chelsea eða Sevilla. Lampard fær hrós fyrir að sigla okkur taplausum í gegnum riðilinn og einungis tvö mörk skoruð á okkur. Tuchel fær svo það verkefni að þurfa að eiga við Atletico Madrid – Porto og Real Madrid á ferðalagi sínu í úrslitaleikinn.


Ég þarf nú ekki að tyggja það ofan í ykkur lesendur góðir hvernig fór fyrir þeim liðum, nálgun Tuchel í þeim viðureignum var upp á 10,5. Átta mörk skoruð og fengum aðeins á okkur tvö á móti. Knattspyrnustjórar þessara liða eru eflaust enn að spyrja sig „Hvur í fjandanum er þessi Brandur sem Tuchel er að tala um?“.


Nú er frábæru ferðalagi lokið og við erum komin á leiðarenda að fara mæta eflaust besta liði veraldar á laugardaginn kemur þegar við berjumst við Manchester City um þessa eftirsóttu dollu. Búið er að opinbera 25 manna hópinn sem Bragðarefurinn tók með sér til Portúgal og blessunarlega eru þeir kumpánar Mendy og Kanté í hópnum.


Fréttaritari CFC.is, Þór Jensen ferðaðist alls ekki með liðinu til Potúgal en hefur legið yfir öllum miðlum í dag og fengið að fylgjast með æfingum liðsins og staðfesti hann að Mendy sé í fullu fjöri á æfingu og líti bara déksoti vel út. Refurinn hefur einnig staðfest að Mendy muni spila gangi hann heill til skógar. Þetta eru magnaðar fréttir því eflaust hafa margir dauðadæmt leikinn fyrir fram ef spænska pylsan myndi standa í búrinu á móti City. Allt lítur út fyrir að Tuchel geti stillt fram sínu sterkasta liði gegn Guardiola og skósveinum hans. Ég hef það á tilfinningunni að TT sé með Pep dálítið í vasanum. Tveir sigrar gegn City á stuttum tíma sem voru bara nokkuð sannfærandi fyrir utan 4 mín kafla í deildarleiknum þegar við fáum á okkur mark og víti skömmu seinna. Þess fyrir utan vorum við nánast með leikina í teskeið. Samt var ég ein nötrandi taugahrúga með stress mælinn í botni og laugardagurinn kemur verður engin undantekning.


Byrjunarliðið

Ef ég þekki minn mann rétt þá mun hann stilla fram sínu reynslumesta lið í úrslitaleiknum, reynslan getur oft virkað eins og tólfti leikmaðurinn í svo RISA leikjum. Skvettum þá í byrjunarliðsspánna.


Mendy er alltaf að fara byrja leikinn nema að meiðslin fari að gera var við sig aftur, við skulum bara krossleggja allt sem hægt er að leggja í kross og vona að hann standi vaktina í búrinu.


Öftustu þrír verða svo Rudiger, Silva og Azpilicueta, ég held að það sé full mikið gamble að henda Danska prinsinum í byrjunarliðið þar sem hann hefur ekki spilað mínútu síðan hann fór meiddur útaf á móti City, sem var hans allra versti leikur undir handleiðslu TT. Vængbakverðirnir verða svo Chilwell og James. Ég trúi því þó alveg uppá Refinn að víxla Azpi og James úr WB í CB.


Á miðjunni verða svo þeir Kovacic og Kanté, sá fyrrnefndi sat blaðamannafundinn með stjóranum og þykir mér því líklegt að hann byrji á kostnað Jorginho.


Þá er það blessuð framlínan, þar er okkar allra besti Mount fyrstur á blað. Eitthvað segir mér svo að með honum frammi verða Werner og Hakeem „The Dream“ Ziyech. Sá síðarnefndi er mikill stórleikja maður og er hann búinn að skora tvívegis á móti City á tímabilinu, svo hafa þeir Werner tengst vel saman í svona stórleikjum. Ég er þó alveg sannfærður um það að við fáum að sjá CP10 inná þegar líða fer á seinni hálfleik.



Manchester City

Pep Guardiola og hans leikmenn eiga harma að hefna, okkar menn byrjuðu á að gríta þeim út úr FA bikarnum og með því skemma alla möguleika á því að þeir nái fernunni í ár. Þeir ætla sér alls ekki að láta okkur koma í veg fyrir annan bikar svo eitt er víst. Eftir að hafa orðið sófameistarar um daginn mátti búast við einhverri meistara þynnku.


Þeir rétt unnu Newcastle í fjörugum leik og töpuðu svo óvænt fyrir Brighton í 37. umferð. Þeir fengu sér svo greinilega afréttara fyrir loka umferð deildarinnar og straujuðu Everton sannfærandi 5-0. Þeir hafa fundið sitt jafnvægi og endurheimt baráttu andann fyrir komandi stórleik. Á sama tíma höfum við verið að mísstíga okkur hrottalega með þremur töpum í síðustu fjórum leikjum. Töpuðum miklivægum stigum sem hefðu getað kostað okkur Meistaradeildarsæti á næsta tímabili. Sem betur fer kom Gareth nokkur Bale til sögunnar og tryggði okkur 4. sætið. Með þeirri frammistöðu er hann endanlega kominn á jólakortalistann minn.


Meistaradeildarbikarinn er sá eini sem City hefur ekki lyft undir stjórn Pep. Hann er alltaf að fara stilla fram sínu sterkasta liði og ætlar sér að keyra á okkur og spila þann leik sem þeir þekkja best. Pep er ekki að fara í þennan leik án þess að vera búinn að greina alla okkar veikleika og hvernig hann getur nýtt þá.


Það eru engin teljandi meiðsli í herbúðum City manna en nokkur spurningamerki varðandi byrjunarliðið. Eins og flestir vita hefur Pep ekki verið að notast við hreinræktaðan framherja í þessum stóru leikjum í Meistaradeildinni. Hann hefur látið Bernardo Silva og Kevin De Bruyne skiptast á að spila hina alræmdu "fölsku-níu". Það eru allar líkur á því að Pep haldi sig við það plan. Mögulega gæti hann komið á óvart og stillt upp Ferran Torres sem fremsta manni.


Það er svo spurning hvor byrjar á miðjunni Rodri eða Fernandinho. Rodri er sá leikmaður sem er með flestar spilaðar mínútur af leikmönnum City en ég ælta að tippa á að Brassinn Fernandinho byrji leikinn. Svo er það spurning hvort Pep haldi sig við Zinchenko á vinstri bakverðinum eða gefi Cancelo traustið.


Spái City liðinu svona:



Spá

Aldrei hef ég verið jafn smeykur við að spá fyrir um úrslit, hræðslan við að jinxa eitthvað í hámarki. Ég er ekki frá því að ég sé sveittur í lófum og á eftir vörinn bara við a skrifa þetta. Langar mig því að biðla til allra stuðningsmanna, ef þið eigið ykkur einhverja happa hefð eins og snúa nærbuxunum á rönguna, sleppa því að þvo happa treyjuna, bursta tennur með vinstri, ganga um í krumma eða eitthvað slíkt þá alls ekki sleppa þeirri hefð á laugardaginn! Við þurfum á öllum liðsstyrk að halda til að skila dósinni heim á Brúnna.


Mér finnst vera bullandi framlengingar lykt af þessum leik og tel ég að þegar klukkan slær 90+ mín standi leikar jafnir 1-1. Það verður svo CP10 sem siglir þessu heim í framlengingu. Loka tölur eftir 120 mín 2-1 Chelsea og bikarinn til Lundúna.


Hér er svo spá annara ritstjórnarmeðlima CFC.is

Þór Jensen: 0-0 og Chelsea vinnur 5-4 í vító.

Hafsteinn Árnason: 1-0 fyrir Chelsea. Mason Mount tryggir okkur sigur.

Stefán Marteinn: 1-0 fyrir Chelsea. Thiago Silva skorar eftir horn.

Markús Pálmason: 2-1 fyrir Chelsea. Mount og Werner með mörkin.

Jón Kristjánsson: 1-1 og fer í vító þar sem Werner verður hetjan eða skúrkurinn.

Jóhann Már: 1-1 og Chelsea vinnur í vító 5-3.

Elsa Ófeigs: 3-2 fyrir Man City. Havertz með bæði fyrir Chelsea í sáru tapi.

BIÐIN STYTTIST!


KTBFFH

- Snorri Clinton

Comments


bottom of page