top of page
Search

Örlög tímabilsins

Chelsea - Real Madrid


Keppni: Premier League

Tími og dagsetning: Þriðjudagur 18. apríl kl: 19.00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: ViaPlay, Ölver og fleiri samkomustaðir

Upphitun eftir: Hafstein Árnason





Það er óhætt að segja að lærisveinar Roberto De Zerbi hafi gjörsamlega buffað okkur í leiknum um helgina. Chelsea komst þó yfir með marki frá Conor Gallagher, en eins og allt hefur verið tilviljanakennt hjá liðinu, þá var markið, sérstaklega þannig. Skot sem breytti um stefnu á varnarmanni og hafnaði óvænt í netinu. Eftir þetta var okkar framlagi í leiknum svo gott sem lokið. Brighton tók yfir öll völd á vellinum og gjörsamlega völtuðu yfir okkur í öllum þáttum leiksins. Frank Lampard hélt uppteknum hætti við að rótera leikmönnum og hvíldi lykilleikmenn fyrir seinni leikinn gegn Real Madrid. Afleiðingin var sú að liðið var frekar ósamstillt og andlaust. Lampard hafði það að orði að liðið er að klikka á grunnþáttum eins og hlaupatölum, baráttuanda, tæklingum og ákveðnum eldmóði.


Nokkrir jákvæðir punktar. Kepa varði helvíti vel og bjargaði liðinu frá algerri útreið, líkt og í fyrri leiknum þegar De Zerbi og félagar pökkuðu okkur saman 4-1. Benoit Badiashile fékk loksins tækifæri til að spila - eftir talsvert langa og má ég segja, ósanngjarna fjarveru? Conor Gallagher skilaði kílómetrum og einu marki, og Mikki Mudryk skilaði stoðsendingu, sem gerir hann faktískt, að stoðsendingakóngi liðsins í deildinni með heilar tvær stoðsendingar. Reyndar eru Mason Mount, Marc Cucurella, Raheem Sterling, Thiago Silva, Ben Chilwell og Enzo líka með tvær stoðsendingar, en miðað við mínútufjöldann - þá leiðir Mudryk þetta kapphlaup. Aðrir leikmenn voru bara hreint út sagt, lélegir í leiknum. Brighton voru frábærir og það ótrúlegt hvað Roberto De Zerbi hefur gert með þetta lið á sama tíma og við fengum Graham Potter. Undirritaður vonar eiginlega að Brighton hendi Manchester United öfugum útúr FA Cup og taki þá dollu í vor.




Todd Boehly og Behdad Egbhali voru á vellinum. Seinna kom í ljós að áhorfendur, staðsettir fyrir ofan boxin þeirra voru farnir að skiptast á skoðunum við eigendurna. Öll þessi uppákoma var mjög vandræðaleg. Sagt var að eigendurnir voru inn í klefa með liðinu í sirka klukkutíma eftir leik. Aðspurður um þetta atvik sagðist Frank Lampard gera engar athugasemdir við að eigendur völsuðu inn í klefa eftir leiki. Þegar Roman gerði það, þá var það yfirleitt til að fagna titli. Vafalaust hafa þeir félagar setið í klefanum með liðinu og reynt að klóra sér í kollinum hvert þessara hundruð milljónir punda skyldu hafa farið. Og talandi um önnur 100 milljón punda vörusvik, þá hefur það birst núna opinberlega í Gazzetta Dello Sport, hinum virta ítalska fjölmiðli, að Inter séu búnir að fá sig fullsadda af belgísku rjómavöfflunni Romelu Lukaku. Erfitt er að sjá hverjir vilja borga launin hans á láni líkt og Inter gera og FFP reglurnar sníða okkur þröngan stakk eftir vexti.


Það verður því vandasamt verkefni fyrir næsta stjóra að finna lausnir á því máli. Leitin að stjóranum mikla heldur áfram. Julian Nagelsmann á að hafa hitt stjórnendur liðsins og haldið kynningu á sínum hugmyndum í nýlegu atvinnuviðtali. Spænski fjölmiðillinn AS sagði frá því í liðinni viku að Luis Enrique hafi verið nokkuð vonsvikinn með þá ákvörðun að gefa Frank Lampard traustið út leiktíðina. Hann var virkilega til í að takast á við áskorunina að mæta Real Madrid. Það varð ekki, og núna erum við 2-0 undir í einvíginu með Ben Chilwell í leikbanni. Höfum við séð það svartara? Eiginlega. Það eru 11 ár síðan við vorum 3-1 undir gegn Napoli í 16. liða úrslitum. Við unnum 4-1. Á þessum tímapunkti var enginn að búast við því að liðið myndi vinna einvígið við Napoli, hvað þá sjálfan titiltinn. Við skulum rifja þetta upp:




Sannkallað Evrópukvöld á Stamford Bridge. Svo í sömu keppni var það gegn Barcelona. Sem var þá undir stjórn Pep Guardiola og ég held að Lionel Messi hafi skorað 73 mörk í 60 leikjum það tímabil. Xavi og Iniesta voru á hátindi ferilsins. Chelsea marði 1-0 sigur á Brúnni, en á Nývangi komust Börsungar yfir 2-0 í fyrri hálfleik. En svo kom chippan hjá Ramires. Það er í raun aðdáunarvert að sjá hvernig leikmennirnir börðust eins og grimm ljón í þessu einvígi. Varnarleikurinn var ótrúlegur. Fórnfýsin alger. Ekkert gefið eftir. Þarna var hausinn í lagi. Þarna var lið að berjast. Skoðum það betur:




Þessi bárátta hélt svo áfram í úrslitaleikinn þar sem við mættum Bayern Munchen á þeirra heimavelli. "Unser Stadt, Unser Stadion, Unser Pokal". Hver man ekki eftir þeim tifo borða? Fernando Torres kominn í bakvarðastöðuna utan á José Bosingwa, og Ryan Bertrand að spila sinn jómfrúarleik, í bakverði utan á Ashley Cole! Samt unnum við þessa leiki. Alltaf með vindinn í fangið.




Það verður því að segjast að við höfum séð það svart fyrir leiki í gegnum söguna, en sérstaklega þetta tímabil 2012. Þar sem deildin fór í skrúfuna og caretaker stjóri náði að vinna þann stóra. Núna erum við að fara mæta Real Madrid. Liðið sem hefur beinlínis svarta beltið í Meistaradeildinni. Luka Modric og Karim Benzema hafa unnið þennan titil fimm sinnum. Toni Kroos fjórum sinnum. Carlo Ancelotti hefur unnið hann þrisvar sem þjálfari og tvisvar sem leikmaður. Mardídíngar eru helvíti öflugir í skyndisóknum með Vinicious Jr. Þetta er ekki ómögulegt verkefni. Sagan er líka með okkur sem underdog. Við þurfum á kraftaverki á að halda eða eintómri heppni. En athugið það góðir lesendur, við skulum minnast orða stóíska heimspekingins Lucius Seneca, að heppni þar sem góður undirbúningur hittir tækifæri. Þetta er hægt ef Frank Lampard nær að berja í brestina og fá leikmenn algjörlega upp á tærnar og N'Golo Kante í "beast mode".


Chelsea verður án Ben Chilwell, eins og áður sagði. Kai Havertz er tæpur en æfði þó fyrir leik. Koulibaly, Broja og Chukwuemeka á meiðslalista. Badiashile og Aubameyang utan hóps. Þá spurning hvort Lampard stillir upp í 3-4-3 eða 4-3-3. Tel það mjög hæpið að hann reyni aftur 3-5-2 gegn Real þegar það virkaði augljóslega ekki. Ég tel það nokkuð klárt að Lampard vilji frekar spila þremur miðjumönnum til að reyna loka eins mikið og hægt er á Modric og Kroos. Þess vegna er líklegt að hann spili 4 manna línu fyrir framan Kepa. Með Cucurella í vinstri, Fofana og Thiago Silva, og svo Reece James í hægri. Miðjan verður Enzo, Kovacic og N'Golo Kante. Fremstu þrír Mudryk, Sterling og Joao Felix. Ef hann spilar 3 miðvörðum, þá er líklegt að Kovacic detti út fyrir Chalobah.




Real Madrid verða með sitt sterkasta lið. Allir klárir nema Ferland Mendy sem er meiddur. Hvernig fer þessi leikur? Líklega vinnur Real Madríd þennan, en verðum við ekki að trúa einhver örlög? Þurfum rautt spjald á einhvern Real mann eða vítaspyrnu. Þá kannski gengur það upp!


Þori annars ekki að spá fyrir um þennan leik. Hjátrúin tekur öll völd!


KTBFHH!

Σχόλια


bottom of page