top of page
Search

Í næsta nágrenni gegn Fulham


Keppni: Premier League

Tími, Dagsetning: Fimmtudagur 12. Janúar 2023 kl: 20.00

Leikvangur: Craven Cottage

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport

Upphitun eftir: Þráinn BrjánssonEftir tvær viðureignir við Manchester City á nokkrum dögum er komið að því að við heimsækjum Craven Cottage og heilsum upp á Marco Silva og lærisveina hans í Fulham. Ekki er mikið hægt að draga út úr leikjunum við City, en fyrri leikurinn í deildinni var svo sem ekki alslæmur og stóðu okkar menn sig ágætlega miðað við að vera með vængbrotið lið. City marði sigur með einu marki gegn engu, en seinni leikurinn var hörmulegur bikarleikur og töpuðum við honum 4-0. Oft hefur ástandið verið betra hjá okkar ástkæra klúbbi og nú er staðan þannig að 10 lykilmenn eru frá vegna meiðsla, við erum að tala um nánast heilt byrjunarlið!!! Hversu súrrealískt er það? Og nýjustu fregnir herma að Pulisic verður frá í einhverja mánuði og ekki batna horfurnar varðandi framlínuna við það. Auba er víst orðinn leikfær, og það er þó sárabót, þó hann hafi hreint ekki verið að gera einhverjar rósir sem af er.


Óhætt er að segja að "Potter Out" vagninn er lagður af stað og keppast menn nú við að finna honum allt til foráttu og heimta hann burt. Klárlega er staðan slæm, en mín persónulega skoðun er sú að Potter eigi að fá mun lengri tíma til að byggja upp. Ég er alveg klár á því að enginn stjóri hefði náð betri árangri með alla þessa lykilmenn í meiðslum. Breiddin í hópnum er engin, það er greinilegt að Potter hefur þurft að leita niður í yngriflokkastarfið til að finna boðlegan mannskap. Það kannski ekki slæmur kostur og þessir guttar sem hafa fengið að spreyta sig hafa flestir staðið sig vel. Mín skoðun er sú að hann eigi að fá að sanna sig betur, enda eru þessi eilífu stjóraskipti hjá klúbbnum algerlega glórulaus og hafa ekki skilað okkur neinu. Ef staðan hefði verið eins og í dag og við með alla menn heila þá hefði ég örugglega verið annarar skoðunar.

En við skulum ekki horfa lengur í baksýnisspegilinn og fátt er svo með öllu illt, að nú er það orðið ljóst, að Joao Felix er genginn í raðir Chelsea á láni út tímabilið. Toddi borgar 11 milljónir punda í lánsfé og greiðir launin hans að auki. Felix þótti einn alefnilegasti leikmaður Evrópu þegar hann var keyptur til Atletico Madrid frá Benfica, en hefur af einhverjum ástæðum ekki náð að sýna sitt rétta andlit. Hann þykir sérstakur og á ekki skap með Simeone þjálfara Atletico og fer aftur til Spánar eftir tímabilið þar sem Simone er á förum frá Madrídingum. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með honum og vona ég sannarlega, að hann komi með brodd í sóknarleikinn sem okkur vantar sárlega. Ekki hefur alltaf gert sig að fá stór nöfn í framlínuna og má nefna Torres, Pato, Falcao og fleiri, en óskaplega væri gaman að sjá Felix blómstra.


Enzo Fernandez virðist út úr myndinni, en Chelsea eru sannarlega ekki hættir á markaðnum. Nöfn sem hafa heyrst eru til að mynda Pedro Porro, varnarmaður Sporting ásamt franska sóknarmaðurinn Marcus Thuram. En ekkert er fast í hendi, enda nógur tími eftir af glugganum. Einhverjar róteringar virðast vera í gangi hjá stjórn klúbbsins, en Todd Boehly er hættur sem framkvæmdastjóri félagsins og munu þeir Christopher Vivell, tæknilegur ráðgjafi (e. technical director) og yfirmaður leikmannagreininga (e. head of scouting) Paul Winstanley taka þá ábyrgð á sig héðan í frá. En þá að leiknum gegn Fulham. Ég held að það sé það eina sem hægt er að gera sé að reyna að halda sjó. Ég á ekki von á neinni flugeldasýningu, en það er klárt, ef að klúbburinn ætlar sér að skipta máli, þá verður einfaldlega að landa þremur stigum, svo einfalt er það! Chelsea er fyrir leikinn í 10. sæti með 25 stig og Fulham í því 8. með 28 stig og nú er ekkert annað í boði en að landa þessum þremur punktum og klífa aðeins töfluna.


Fulham


Lærisveinar Marco Silva hafa komið nokkuð á óvart sem af er tímabils en þetta elsta atvinnumannalið á Englandi hefur verið að krækja í stig af "minni" liðum deildarinnar sem við höfum gert sorglega lítið af, og einnig náð nokkrum jafnteflum og þannig tínt inn stig sem hefur skilað þeim í 8. sætið. Reikna má með að þeir stilli upp sínu sterkasta liði og færa sér krísuna hjá Chelsea í nyt, og kreista út sigur. Væntanlega treysta þeir á að Willian geti gefið þeim einhverjar innherjaupplýsingar, en hinn hárprúði Brassi lék með Chelsea á árunum 2013 til 2020 en átti svo viðdvöl hjá Arsenal og Corinthias, áður en hann gekk til liðs við Fulham fyrir þetta tímabil, en fer ekki miklum sögum af honum þó.


Chelsea


Það er raunar ekki miklu hægt að bæta við það sem þegar hefur verið skrifað um okkar ástkæra félag, en staðan er hrikaleg og ljóst að það eru miklar og stórar breytingar framundan. Ein stærsta breytingin verður vonandi á hugarfari leikmanna, en það er greinilegt að allnokkrir leikmenn eru á leið niður brekkuna. Aðrir yngri og hugaðri verða að taka við keflinu, stíga fram og sýna hungur, drifkraft og djörfung. Efniviðurinn er fyrir hendi, Lewis Hall hefur verið góður þegar hann hefur fengið tækifærið og pilturinn með erfiða nafnið hann Chukwuemeka, hefur sýnt góða hluti og væntingar eru miklar til Badiashile og David Fofana, svo ekki sé minnst á okkar nýjasta mann, hann Joao Felix.


Byrjunarlið og spá

Ja nú segi ég bara eins og skáldið "vandi er um slíkt að spá", en nú verður bara að rífa þetta í gang og vona það besta! En ef við byrjum á liðinu, þá veðja ég enn og aftur á að Potterinn hendi í 4-3-3 og Kepa verður í markinu þó að hann hafi sofnað örlitla stund á óheppilegum tíma gegn City á dögunum. Fyrir framan hann verða Cucurella, Koulibaly, og Azpi og ég ætla að skjóta á að Badashile verði settur á stóra sviðið. Á miðjunni verða Kovacic, Jorginho og Gallager og fremstir verða Mount, Ziyech og Havertz, en ég gæli nú samt við þá tilhugsun að Felix fái einhverjar mínútur og þá fyrir Havertz, en Auba virðist vera útbrunninn því miður. Ég get ekki annað en verið bjartsýnn og ætla mér að spá okkar mönnum sigri, en ég gæti trúað að það verði tæpt og þá aðeins með einu marki. Mér gæti vart verið meira sama hver verður þess heiðurs aðnjótandi að skora sigurmarkið, bara ef það gengur eftir. Nú er ekkert annað en fulla ferð áfram!!!!


Áfram Chelsea!


Comments


bottom of page